Greinar

Byrjum á grunninum

Það er mikið talað um að nú sé rólegur tími í ferðaþjónustu. Það á samt aldrei að tala um rólegan tíma þegar kemur að því hvernig hægt er að koma vörunni/þjónustunni okkar betur á framfæri.

Núna er tíminn til að setjast niður og horfa heildstætt á allt saman og sjá hvað er hægt að gera betur. Fæstir höfðu tíma í þessa vinnu þegar við vorum að einbeita okkur að gestunum okkar.

Við getum skoðað markhóp gististaðarins og athugað hvernig hægt er að ná betur til hans. Það er líka hægt að fara í vöruþróun, auglýsingaherferðir, útbúið ýmiskonar pakka og búið til tilboð.

Allt þetta er gott og gilt, en hvernig væri að byrja á grunninum, þ.e. skoða hvernig gististaðurinn er sjáanlegur á netinu þar sem verið er að selja eða kynna gististaðinn?

Við ráðum því ekki mjög mikið hver markhópur gististaðarins er. Hann ræðst mest af því hvaðan flug til Íslands koma. Við flugstöðina skiptir líka máli hvaða tíma dags eða nætur flugvélar lenda. Markhópurinn á þínu svæði er líka oft til kominn vegna þess að einhver kvikmynd var gerð á svæðinu eða einhver stjarna tók mynd af sér og setti á Instagram. Þessi atriði hafa mest áhrif á það hver gistir á þínu svæði og þú hefur því miður ekki mikil áhrif á það að það borgar sig að reyna að sveigja einhvern ákveðinn markhóp til að gista hjá þér. Njóttu þess að fá gesti sem koma í ákveðnum tilgangi og aðstoðaðu gestinn við það.

Vöruþróun er alltaf mikilvæg. En hvað er átt við með því? Að bæta við þjónustu eða bæta við einhverju áþreifanlegu? Það á alltaf að bæta og uppfæra vöruna til þess að hún verði ekki úrelt. Enginn vill gista í herbergi sem er með úreltu túbusjónvarpi, gamalli dýnu og engu interneti. Í ástandi eins og er í dag er oft besta niðurstaða vöruþróunar hjá mörgum að útbúa þrifa- og viðhaldsáætlun og halda sig við hana. 

Hvernig á gististaður að auglýsa sig og ná til þess markhóps sem hann vill fá? Ég nefndi áðan að það er ekki hægt nema að mjög litlu leiti að fá þann markhóp sem maður vill sjálfur fá. Í sumar gekk mjög vel að nota Facebook og Instagram til að ná til Íslendinga. Þeir sem fóru strax að nota þá miðla gekk mjög vel að fá íslenska gesti. Ég tel þetta vera einstakt og sýna kannski betur hversu lítið við sjálf höfum skoðað mögueikann á því að ferðast innanlands og þekkjum landið okkar lítið. Innanlandsmarkaður er alltaf öðruvísi en sá erlendi.

Þegar ég var að byrja að vinna á hótelum, þá voru þau öll að bjóða upp á alls konar pakkatilboð. Þeir voru mjög áhugaverðir en vegna þess hversu fáir voru að kaupa þá þá var alltaf eitthvað klúður. Það reddaðist oftast en það var ekki alltaf mikil ánægja og flækjustigið var mikið. Núna er ekki tíminn til að búa til pakka heldur að kynna gestunum fyrir því sem er í nágreninu, t.d. á heimasíðunni og þar sem gististaðurinn er staðsettur. Ég er búinn að lesa margar greinar ýmissa ráðgjafa að núna er tíminn til að búa til pakkaferðir en ég er ekki sammála því og er ekki einn um það. Núna er tíminn til að búa til hagstæðustu ferðina fyrir ferðamanninn og hafa sem minnst innifalið. Það eina sem pakkinn býr til er lægri framlegð fyrir þig þar sem þú ert að gefa afslátt, oft á vöru sem gesturinn er þegar búinn að taka ákvörðun um að ætla að greiða fyrir.

Það sem skiptir máli er hvernig þú kemur þinni vöru á framfæri. Hvar er gististaðurinn skráður? Hvar er hægt að bóka hann? Ertu með heimasíðu? Eru aðrir en þú að stjórna því hvernig upplýsingar um gististaðinn þinn birtast? Eru verðin á þinni heimasíðu að birtast á verðsamanburðarsíðum? Hvað kemur upp þegar þú leitar að gististaðnum á netinu?

Við eigum fyrst og fremst að vinna í því að koma vörunni okkar á framfæri þar sem það kostar ekkert og eins og við viljum að henni sé komið á framfæri. Það eina sem kostar er heimasíðan. Hún býr til meiri trúverðugleika og það sem mestu máli skiptir er að þegar gestir bóka á síðunni, þá ertu að greiða lága eða enga þóknun og þar með meiri framlegð. Í þessum liðum eru ansi margir gististaðir að fá lága einkunn.

Fáðu aðstoð til að koma þínum gististað á framfæri sem býr ekki til langtímaútgjöld og flækjustig heldur býr til traustan tekjugrunn fyrir þinn gististað til framtíðar.

Að keppast við að selja ekki herbergin sín

Ekkert fyrirtæki getur verið í rekstri ef það selur ekki vöruna sem það bíður upp á. Það skiptir ekki máli hvort það er vara eða þjónusta.

Það geta allir verið sammála þessari fullyrðingu.

En ef ég myndi segja að mörg fyrirtæki eru með frábæra vöru en vilja ekki selja hana. Þá myndu mörg ykkar segja að þetta væri ekki sönn fullyrðing, en hún er það.

Það er fjöldi fyrirtækja í ferðaþjónustu sem hafa engan áhuga á að selja vöruna sem þau eru með í „sölu“. Mörg vilja frekar liggja á henni frekar en selja.

Hver er ástæðan? 

Margir gististaðir velja stundum aðeins tvær hótelbókunarsíður til að selja vöruna sína og gera allt til þess að vera hvergi annars með vöruna í sölu. Þau gera það þrátt fyrir að eftirspurn væri eftir vörunni annars staðar ef hún væri þar til sölu.

Þau velja frekar að „gefa“ herbergin en að bæta við sölurásum fyrir herbergin.

Flestir gististaðir eru með frábæra vöru sem auðvelt er að selja. Flöskuhálsinn í sölunni eru oft eigendur og hagsmunaaðilar sem vilja ekki selja herbergin sín ef það er ekki í gegnum hótelbókunarsíðurnar tvær.

Eigendurnir eru þá orðnir sölumenn fyrir hótelbókunarsíðurnar frekar en sölumenn gististaðarins.

Það verður að breyta hugarfarinu yfir í að vilja selja herbergin öllum þeim sem vilja kaupa hana á sem besta verði. Nafnið á sölurásinni skiptir ekki máli ef hún stendur sig vel og selur herbergin.

Þegar ég starfaði ég sem hótelstjóri, þá leitaði ég sérstaklega upp fyrirtæki sem enginn þekkti því þá sat ég einn um að selja herbergi á ákveðnu svæði. Þetta gekk framar vonum.

Að selja herbergin einvörðungu á þeim stað þar sem allir aðrir gististaðir eru gerir ekkert fyrir gististaðinn nema að vera meðalgististaður með tekjur undir því sem annars er hægt að ná.

Fjölgun sölurása hefur jákvæða áhrif á fjölgun beinna bókana, þ.e. í gegnum bókunarhnapp gististaðarins.

Hvernig væri að taka skrefið og fara að selja herbergin sem standa auð. Því fyrr sem þú fyllir gististaðinn af gestum þeim mun fyrr skilar hann ásættanlegum tekjum.

Eftir Covid-19 er ekki eftir neinu að bíða. Samkeppnin sefur ekki.

Við hjá Hospitality.is veitum þér alla ráðgjöf og hlökkum til að heyra frá þér.

Hvenær á gististaður að opna aftur og er hann tilbúinn?

Við fengum góðar fréttir í vikunni þegar Pfizer tilkynnti að prófanir með bóluefni gegn COVID-19 hefðu gengið vel. Þetta eru auðvitað mjög góðar fréttir fyrir ferðaþjónustufyrirtæki sem hafa þraukað frá því í mars á þessu ári. Vonandi mun þetta leiða til þess að landið opnar bráðlega og að á næsta ári muni ferðaþjónustan vera komin á fulla ferð.

Nú þegar þessar fréttir hafa borist, þá er spurningin hvort gististaðir eru tilbúnir til að taka á móti gestum þannig að það verði arðbært. Enginn gististaður mun vera með sömu nýtingu og áður og hún verða mjög breytileg eftir dögum og verðin verða ekkert til að hrópa húrra fyrir. Það verður erfitt að reikna starfsmannaþörf í þannig ástandi og mun launakostnaður vera hlutfallslega mjög hár og að öllum líkindum leiða til þess að engin framlegð eða tap verður eftir opnun.

Í ástandi eins og er í dag, þá eru flestir gististaðir lokaðir og eru ólmir í að opna og taka aftur á móti gestum. Spurningin er, hvenær á gististaðurinn að opna aftur? Á hann að opna um leið og aðrir,bíða eða taka frumkvæði og vera fyrstur til að opna? Þetta er stóra ákvörðunin sem margir eru að velta fyrir sér í dag.

Gististaðir verða að vera meðvitaðir um kostnaðarliðina sem eiga eftir að hækka hlutfallslega meira en tekjur við opnun. Í dag er verið að selja gististöðum þjónustu sem gæti verið góð leið til að launakostnaður rjúki ekki upp úr öllu valdi. Starfsmannaleigur sem sérhæfa sig í þrifum geta verið góð lausn en þá er aðeins greitt fyrir þau herbergi sem eru þrifin. Þvottahús eru einnig að bjóða gististöðum upp á að leigja lín þannig að gististaðirnir sjálfir þurfa ekki að fara í þá fjárfestingu eins og að fjárfesta og viðhalda heilu þvottahúsi og kaupa reglulega lín sem er sömuleiðis mikil fjárfesting með miklum afföllum. Ef samningar nást, þá er hægt að halda áfram að nota þjónustuna þegar allt er komið á fullt. Ég geri ráð fyrir því að starfsmannaleigur greiði rétt og fari eftir öllum samningum. Ég hef reynslu af þessu sem gafst mjög vel.

Gististaðir þurfa heldur ekki að bjóða upp á alla þá þjónustu sem þeir annars bjóða upp á í venjulegu árferði. Flestir gestir hafa skilning á því vegna ástandsins í heiminum í dag. Það eina sem þarf að gera er að láta gestinn vita þegar hann mætir og benda honum á hvar hægt sé að fá sömu eða betri þjónustu annars staðar. Reynslan mín hefur kennt mér að gestur sem fær upplýsingarnar þegar hann mætir er sáttur en sá sem fær engar upplýsingar verður mjög ósáttur. Það þarf ekkert að afsaka heldur aðeins útskýra fyrir honum og bjóða aðra möguleika.

Það sem skiptir öllu máli og er í raun forsenda þess að hægt er að opna aftur er að gististaðurinn sé að taka á móti bókunum. Ef hann er ekki að hugsa um það, þá þarf ekki að hugsa um hvenær á að opna aftur. Að segjast vera með verðstýringu en fá engar bókanir, segir flestum að hún sé ekki að virka. Verðstýring byggir oftast á sögulegum gögnum og það er því miður ekki hægt að byggja á slíkum gögnum þar sem sveiflur milli ára eru of miklar. Það verður að byggja á reynslu. Það er ástæðan fyrir því að ég tel að verðstýring eigi að vera í höndum ábyrgs aðila innan gististaðarins en ekki einhvers utan aðkomandi. Tekjur eru frumforsenda alls og á ekki að vera höndum einhvers sem geur ekki borið ábyrgð.

Núna er mikilvægt að skrá gististaðinn á eins mörgum stöðum eins og mögulegt er til að ná hverju einustu mögulega bókun. Því fyrr, því betra. Það er ekki nóg að hafa hann skráðan á 2-3 stöðum. Það er svo mikilvægt í dag fyrir gististað að vera sýnilegur og bókanlegur alls staðar en ekki á aðeins fáum útvöldum bókunarsíðum. Þetta er reynslan mín sem hefur virkað í hvert einasta skipti.

Það er margt sem verður að hafa í huga áður en að gististaður opnar aftur. Mikilvægt er að halda kostnaði í lágmarki og hámarka tekjur eins fljótt eins og hægt er með að fjölga bókunarleiðum. Þá er hægt að opna gististaðinn fyrr og skila arðsemi. Ég tel að gististaðir sem eru með þetta í huga eigi eftir að verða leiðandi í framtíðinni.

Láttu okkur vita hvernig við getu aðstoðað þig. Sókn er besta vörnin!

Booking.com er mikilvægur hlekkur til að ná árangri en alls ekki sá eini!

Það er í raun alveg frábært hversu auðvelt það hefur verið að opna hótel eða gistiheimili og fá nægilega margar bókanir til þess að standa undir kostnaði. Það sem hefur gert þetta svona auðvelt er hversu stórt Booking.com er á markaðnum. Það var nóg að skrá gistinguna þar og bókanirnar hrúguðust inn. Svona var þetta þegar ferðamenn streymdu til landsins, þegar WOW air var í fullum rekstri.

Þegar ferðamönnum tók að fækka, þá kenndu margir Booking.com um að þeir væri ekki fá nógu margar bókanir en gleymdu því að það var Booking.com sem gerði þeim kleift að hefja rekstur á ótrúlega einfaldan hátt. Það var í raun engin hindrun á markaðnum.

Þegar nýtt fyrirtæki opnar, þá þarf að fara í mikla og oftast dýra markaðssetningu og auglýsingaherferðir. Það þarf að auglýsa og kynna fyrirtækið fyrir markaðnum og sannfæra viðskiptavininn um að þeirra vara er betri en annara. Þessa vinnu þarf að fara í áður en varan kemur á markað og kostar mikið. Sérstaklega fyrir smærri fyrirtæki með lítið fjármagn. Þrátt fyrir að farið sé í dýra kynningu er aldrei ljóst hver árangur verður. Þessari markaðssetningu þarf að viðhalda eftir að fyrirtækið opnar. Booking.com gerði flestum smærri gististöðum kleift að sleppa algerlega við þessa dýru markaðssetningu. 

Hótelbókunarsíður bjóða gististöðum upp á alls konar leiðir til að selja gistingu. Það er t.d. hægt að bjóða upp á lægri verð ef bókað er langt fram í tímann, lægra verð ef greitt er strax (non-refundable) og lægra verð þegar boðið er upp á pakka (t.d. gisting og matur). Misskilningur gististaða er að þeir halda að þeir verða að taka þátt í þessum leiðum til þess að selja herbergi. Annað sem gististaðir telja að þeir þurfa að gera er að hækka þóknun til hótelbókunarsíða til að birtast ofar í leitarniðurstöðum þeirra. Síðasti möguleikinn eykur svo vanþóknun þeirra á hótelbókunarsíðum. Margir kvarta yfir háum þóknunum, en ákveða svo sjálfir að hækka þóknunina. Ég hef engan skilning á því að greiða hærri þóknun.

Við höfum öll val og enginn neyðir okkur til að gera neitt. Ef gististaður vill hafa hlutina „einfalda“ og bjóða herbergi til sölu á fáum eða jafnvel einum stað, þá er hann sjálfur að koma sér í þá stöðu að þurfa að hækka þóknun og bjóða afslætti. Þetta leiðir af sér lægri eða enga framlegð. Gististaðir geta meira að segja neyðst til að loka.

Síðan ég byrjaði að vinna á hótelum þá hef ég haft það sérlega á tilfinningunni að allt of margir gististaðir vinni sölustarfið eftir hópþrýsingi og vanþekkingu. Með hópþrýstingi á ég við að gististaðir elta hverjir aðra og enginn má vera öðruvísi. Með vanþekkingu á ég við að vegna hópþrýstings, þá þorir enginn að kynna sér aðra möguleika því hópþrýsingurinn segir þeim að ekkert annað sé í boði.

Mín reynsla er sú að stórir og smári gististaðir geta nærri algerlega sleppt dýrri markaðssetningu og auglýsingaherferðum. Mín reynsla er einnig sú að það er hægt að sleppa því að greiða hærri þóknun til hótelbókunarsíða og meira að segja sleppt öllum tilboðum. Booking.com og aðrar hótelbókunarsíður eru samt sem áður mikilvægur hlekkur.

Það eina sem þarf er að fjölga leiðum þar sem hægt er að bóka gististaðinn beint, þ.e. í gegnum netið. Fjölbreyttari dreifing er besti og oftast eini kosturinn til að ná varanlegum árangri. 

Ekki láta hópþrýsting hafa áhrif á þig. Fáðu ráðgjöf um hvað þú getur gert betur og skaraðu fram úr.

Stefán Júlíusson
www.hospitality.is

Mistök í verðlagningu gististaða

Hvað gerir gististaði arðsama? Margir gististaðir hafa skilað eigendum sínum arði en önnur ekki. Staðsetning gististaðarins, þ.e. landfræðilega, skiptir máli og oft er sagt að það sé það eina sem skiptir máli. 

Mín reynsla segir mér annað. Það sem skiptir máli er hvernig þú kemur þér á framfæri og þá á ég ekki við hvernig heimasíðan er eða hvernig samfélagsmiðlarnir eru nýttir heldur hvernig þú kemur þér á framfæri með verðlagningunni.

Það eru svo margir gististaðir sem byrja á því að verðleggja sig rangt. Þeir gefa þá sterkt merki um það að viðskiptavinir eru ekki velkomnir, líka viðskiptavinir sem eru tilbúnir að greiða ásættanlegt verð. Þessir viðskiptavinir fara og gista annar staðar.

Það eru margar ástæður fyrir mistökum í verðlagningu. Stjórnendur „búa til“ verð sem þeir vilja og telja ásættanlegt fyrir sig. Þetta verð er búið til með tilfinningunni einni og án allra stoða í raunveruleikanum. Það er hægt að kalla þetta „einhver sagði einhverjum að hann væri að selja herbergi á þessu verði“ tæknina.

Segjum að unnið sé áfram á þessu verði. Þá er svo gefinn áfsláttur, eðlilega, til ferðaskrifstofa. Það kemur svar frá þeim um að verðið sé of hátt og ekki sé hægt að selja herbergi á þessum verðum. Þá er ákveðið að sérvaldar ferðaskrifstofur fái svokallað sérverð sem endurspeglar stærð ferðaskrifstofanna. Engum dettur enn í hug að upphaflega verðið sé einfaldlega of hátt.

Nú er búið að gefa út verð og uppfæra þau á heimasíðu, bókunarsíðum og hjá ferðaskrifstofum og það eina sem er eftir er að taka við bókunum.

Jæja, svo einfalt er þetta ekki. Bókanir eru barasta ekki að koma nema bókanir streyma inn frá ferðaskrifstofunum með sérverðið. Það styrkir stjórnendurna í þeirri hugsun að rétt hafi verið að gefa þeim afslátt því þetta séu einu bókanirnar sem gististaðurinn fær.

Svona er haldið áfram og nú þarf að skoða stöðuna því allt of fáar bókanir eru að koma. Þá er kannski best að bjóða sértilboð á einhverjum bókunarsíðum, það segja allir að það virkar. Þá er það ákveðið og bókanir taka heldur betur við sér og tilboðið virkar.

Þá eru komin niðurstaða, sérvaldar ferðaskrifstofur og tilboð á einni eða tveim hótelbókunarsíðum virkar. Þetta staðfestir allt sem allir segja.

Nú er sumarið komið og nýtinin var ekkert sérstök og tekjurnar ekki eins og var áætlað. Allt var gert rétt og aðeins samið við nokkrar ferðaskrifstofur um sérverð og tilboðverðið var aðeins á einni bókunarsíðu. Hvað fór úrskeiðið?

Markaðurinn er svo erfiður er oft nefnd sem ástæða. Sem betur fer var samið um sérverð við traustar ferðaskrifstofur og sett inn tilboð á stærstu hótelbókunarsíðuna. Þetta staðfestir aftur allt sem allir segja.

Svona er svo haldið áfram. Allir að gera allt rétt nema tekjurnar og nýtingin er algerlega óásættanleg.

Var þessi leið rétt? Var ekki hægt að bregðast öðruvísi við? Var ekki hægt að ná betri árangri?

Auðvitað er hægt að ná betri árangri en, ótrúlegt en satt, þá eru margir stjórnendur á Íslandi að vinna eftir þessari aðferð sem ég nefndi hér að ofan. Stærð gististaðarins skiptir engu máli.

Til að byrja með, þá er ekki hægt að búa til verð út frá tilfinningunni einni. Það verður að skoða markaðinn og taka ákvörðun út frá honum. Ef markaðurinn er ekki til í að kaupa vöruna á því verði sem þú vilt selja hana, þá verður að endurskoða verðin til allra. Það er ekki gott að gefa sumum ferðaskrifstofum forskot á aðrar ferðaskrifstofur. Þær eru oft að keppast um sömu hópana, þess vegna eru hópar oft tvíbókaðir á gististöðum þar sem bókanirnar koma frá mismundandi ferðaskrifstofum. Þú færð hópinn örugglega á lægra verðinu sem þú gafst sérvöldu ferðaskrifstofunni en á meðan færðu engar bókanir í þau herbergi sem eru lokuð vegna tvíbókunarinnar.

Í staðin fyrir að bjóða tilboð á stærstu hótelbókunarsíðunni, hvernig væri þá að lækka verðið á öllum hótelbókunarsíðum sem samsvarar þessu eina tilboði. Hefur það ekki sömu áhrif ef allir geta bókað á þessu verði? Er kaupendum ekki nokk sama hvort það er tilboð eða ekki ef þú ert með samkeppnishæft verð? Ástæðan fyrir því að tilboðið virkaði er af því að verðin voru í besta falli orðin samkeppnisæf eða að tilboðið virkaði sem undirboð þannig að verðið var allt í einu orðið lægra en annars hefði þurft.

Tilboðsverð á hótelbókunarsíðum er helsta ástæða þess að gististaðir eru ekki að fá beinar bókanir, þ.e. bókanir í gegnum heimasíðu þess. Það er nærri því hægt að fullyrða að verðin eru alltaf lægri á hótelbókunarsíðum en á heimasíðu hótelsins því að einhver tilboð eru í gangi. Eigendur gleyma svo oft að þeir eru sjálfir með bókunarhnapp á heimasíðunni sem virkar vel ef verðin eru samkeppnishæf. Þeir eru í raun í samkeppni við sjálfan sig og dæma sjálfa sig til að tapa með því að hafa verðin hærri hjá sjálfum sér.

Mikilvægast er að fylgjast með því hvort bókanir eru að koma og greina hvaðan þær eru að koma. Það er alltaf hægt að gera leiðréttingar en það á ekki að gera þær of seint. Stöðugt streymi bókana frá mörgum aðilum langt fram í tímann segir þér að þú ert að gera eitthvað rétt. Engar bókanir nema frá einstaka aðilum segir þér að þú ert ekki að vinna rétt.

Stefán Júlíusson
www.hospitality.is

Ertu með heimagistingu og vilt hafa meiri tekjur?

Þegar við ákveðum að leigja út íbúð til ferðamanna þá viljum við helst hafa hlutina einfalda og ekkert flækjustig. Þess vegna ákveða margir að nota aðeins einn bókunarmöguleika, t.d. Airbnb. Ástæðan er sú að það er flókið og tímafrekt að halda utan um margar bókunarsíður þegar það er kannski aðeins ein íbúð í boði. Þetta gerir íbúðarleigjendur háða einni bókunarsíðu. Verðin á bókunarsíðunni verða að vera samkeppnishæf og þrýsingur er á að taka þátt í öllu því sem aðrir seljendur eru að taka þátt í t.d. að bjóða tilboðsverð og/eða greiða hærri þóknunarkostnað til að vera ofar á síðunni. Þetta gerir það oft að verkum að í staðin fyrir að slappa af og taka á móti bókunum, þá er verið að fylgjast með verðum oft á dag, sérstaklega ef fáar eða engar bókanir koma inn. Við afsökum þessar fáu bókanir og lágu verð með því að segja að markaðurinn sé erfiður og framboð af gistingu sé of mikið. Til þess að vera viss um að þú fáir þær bókanir sem þú vilt, þá er alltaf betra að vera á fleiri en einni bókunarsíðu. Það skiptir ekki máli hvort þú ert aðeins með eina eða nokkrar íbúðir í sölu. 

Margir telja að þetta sé oft dýrt og það þurfi fullt af hugbúnaði, t.d. hótelstjórnunarkerfi en Það er ekki raunin. Í dag eru til mjög einfaldar lausnir sem skapa ekki meiri vinnu en heldur eykur tekjur. Channel manager (rásastýring) er einfaldur hugbúnaður sem stýrir framboði og verði á hinum ýmsu bókunarsíðum. Það er mjög einfalt að tengja hann við bókunarsíður. Ef þú ert með eina íbúð í útleigu, þá breytir hann framboði og verðum á öllum bókunarsíðunum sem eru tengdar við rásastýringuna. Þetta er eins og að nota eina bókunarsíðu en sýnileikinn er margfalt meiri og eykur því möguleikann á því að selja íbúðina á fleiri dögum en ella og á ásættanlegu verði.

Þetta virðist flókið en það er það ekki. Þú þarft ekki að þekkja tæknihliðina á þessu, við sjáum um það fyrir þig. Þú þarft aðeins að ráða verðinu á íbúðinni og taka á móti gestum og greiðslum.

Í dag er verið að selja ýmsar lausnir, gamlar og nýjar. Það er alltaf gott að fá ráðleggingar um það hvað hægt sé að gera án þess að hækka kostnað mikið, þ.e. að tekjurnar sem verða til verðskuldi kostnaðinn. Það er óþarfi að búa til kostnað sem býr ekki til hærri tekjur. 

Með bókunarhnappi á heimasíðunni getur þú selt íbúðina á sama verði eins og á bókunarsíðu en þú þarft ekki að greiða nærri því eins háan þóknunarkostnað. Uppsetningin er einföld. Þú getur meira að segja haft bókunarhnappinn á Facebook síðu íbúðarinnar.

Með því að tengja íbúðina við fleiri bókunarsíður og hafa bókunarhnapp á heimasíðunni og á Facebook þá lækkar hlutfallslegur kostnaður við hverja bókun.

Hafðu samband í dag og sjáðu hvað við getum gert fyrir þig.

Stefán Júlíusson
www.hospitality.is

Fjölgun bókunarleiða – Leiðin áfram

Það eru fordæmalausir tímar í ferðaþjónustu á Íslandi og í heiminum. 

Vegna lítillar eftirspurnar erlendis frá eftir gistingu í sumar þá kepptust gististaðir við að fá fleiri bókanir frá Íslendingum og öðrum búsettum á landinu. Margir tóku við bókunum í gegnum síma, með tölvupósti eða í gegnum bókunarhnapp á heimasíðu sinni. Það sýndi sig þó að margir gististaðir eru ekki með bókunarhnapp á heimasíðunni og jafnvel eru þeir ekki heldur með heimasíðu. Að öllu jöfnu greiða gististaðir mun minni þóknunarkostnaður þegar bókað er í gegnum heimasíðu gististaðarins í stað hótelbókunarsíða(OTA). Þess vegna er mikilvægt að bæta úr því í framtíðinni. Margir gististaðir urðu varir við að eitthvað var um að íslensku gestirnir greindu ekki á milli hvort þeir bókuðu beint á heimasíðum gististaðanna eða hótelbókunarsíðum(OTA).

Kauphegðun viðskiptavina hefur verið að breytast og COVID-19 hefur hraðað þeirri þróun. Hópferðum mun fækka og munu ferðamenn vilja í meira mæli ferðast á eigin vegum í framtíðinni. Erlendir ferðamenn þekkja ekki landið vel og þess vegna munu þeir leita til ferðaskrifstofa af öllum stærðum og gerðum til að bóka alla ferðina eða hluta hennar, t.d. flug, bílaleigubíll og/eða gistingu á mismundandi stöðum. Þessa breyttu kauphegðun staðfesta kannanir sem hafa verið gerðar, t.d. af Amadeus.

Erlendar ferðaskrifstofur og fyrirtæki bóka herbergi í gegnum sérhæfð bókunarkerfi. Þessi sérhæfðu bókunarkerfi geta til dæmis verið ferðaheildsalar (Travel Wholesaler) eða GDS (Global Distribution System), svo dæmi séu tekin. Þegar einstaklingar bóka herbergi í gegnum verðsamanburðarsíður(Metasites) þá er verið að styðjast við sérhæft bókunarkerfi og hótelbókunarsíður (OTA). Ferðaskrifstofur nota ferðaheildsala í miklum mæli til að bóka hótelherbergi, annað hvort sem hluta af pakka eða þá fyrir einstaklinga.

Með meiri sýnileika gististaðar og möguleikanum fyrir ferðamenn til að bóka gistingu aukast, þá aukast einnig líkurnar á að sá gististaður verði fyrir valinu umfram aðra. Það er hægt að fjölga bókunarleiðum með einföldum hætti án þess að kostnaður aukist. Það sem þarf er vilji. Sérfræðingar í rekstri gististaða geta innleitt þessar bókunarleiðir á skömmum tíma.

Í gegnum árin hef ég oftar en einu sinni tekið eftir því að eigendur gististaða og hugbúnaðarfyrirtæki hafi verið á móti því að fjölga bókunarleiðum. Ástæðuna er erfitt að greina nema hvað þá einna helst er þetta vanþekking eða óttinn við hið óþekkta. Eigendur eru margir hverjir ekki sókndjarfir og hugbúnaðarfyrirtæki hafa almennt ekki mikla þekkingu á markaðsfærslu gististaða.

Í núverandi ástandi, munu margir gististaðir ekki lifa af nema að þeir geri sig sýnilegri. Leiðirnar sem eru í boði eru hvorki áhættusamar né óreyndar. Þær eru þvert á móti þekktar og traustar. Aukinn fjöldi bókunarleiða er ein besta og ódýrasta lausnin til að fjölga bókunum, auka tekjur og draga úr áhættu. Nú er besti tíminn til að taka af skarið og fjölga þeim. Grípið tækifærin.

Stefán Júlíusson
www.hospitality.is