Byrjum á grunninum

Það er mikið talað um að nú sé rólegur tími í ferðaþjónustu. Það á samt aldrei að tala um rólegan tíma þegar kemur að því hvernig hægt er að koma vörunni/þjónustunni okkar betur á framfæri.

Núna er tíminn til að setjast niður og horfa heildstætt á allt saman og sjá hvað er hægt að gera betur. Fæstir höfðu tíma í þessa vinnu þegar við vorum að einbeita okkur að gestunum okkar.

Við getum skoðað markhóp gististaðarins og athugað hvernig hægt er að ná betur til hans. Það er líka hægt að fara í vöruþróun, auglýsingaherferðir, útbúið ýmiskonar pakka og búið til tilboð.

Allt þetta er gott og gilt, en hvernig væri að byrja á grunninum, þ.e. skoða hvernig gististaðurinn er sjáanlegur á netinu þar sem verið er að selja eða kynna gististaðinn?

Við ráðum því ekki mjög mikið hver markhópur gististaðarins er. Hann ræðst mest af því hvaðan flug til Íslands koma. Við flugstöðina skiptir líka máli hvaða tíma dags eða nætur flugvélar lenda. Markhópurinn á þínu svæði er líka oft til kominn vegna þess að einhver kvikmynd var gerð á svæðinu eða einhver stjarna tók mynd af sér og setti á Instagram. Þessi atriði hafa mest áhrif á það hver gistir á þínu svæði og þú hefur því miður ekki mikil áhrif á það að það borgar sig að reyna að sveigja einhvern ákveðinn markhóp til að gista hjá þér. Njóttu þess að fá gesti sem koma í ákveðnum tilgangi og aðstoðaðu gestinn við það.

Vöruþróun er alltaf mikilvæg. En hvað er átt við með því? Að bæta við þjónustu eða bæta við einhverju áþreifanlegu? Það á alltaf að bæta og uppfæra vöruna til þess að hún verði ekki úrelt. Enginn vill gista í herbergi sem er með úreltu túbusjónvarpi, gamalli dýnu og engu interneti. Í ástandi eins og er í dag er oft besta niðurstaða vöruþróunar hjá mörgum að útbúa þrifa- og viðhaldsáætlun og halda sig við hana. 

Hvernig á gististaður að auglýsa sig og ná til þess markhóps sem hann vill fá? Ég nefndi áðan að það er ekki hægt nema að mjög litlu leiti að fá þann markhóp sem maður vill sjálfur fá. Í sumar gekk mjög vel að nota Facebook og Instagram til að ná til Íslendinga. Þeir sem fóru strax að nota þá miðla gekk mjög vel að fá íslenska gesti. Ég tel þetta vera einstakt og sýna kannski betur hversu lítið við sjálf höfum skoðað mögueikann á því að ferðast innanlands og þekkjum landið okkar lítið. Innanlandsmarkaður er alltaf öðruvísi en sá erlendi.

Þegar ég var að byrja að vinna á hótelum, þá voru þau öll að bjóða upp á alls konar pakkatilboð. Þeir voru mjög áhugaverðir en vegna þess hversu fáir voru að kaupa þá þá var alltaf eitthvað klúður. Það reddaðist oftast en það var ekki alltaf mikil ánægja og flækjustigið var mikið. Núna er ekki tíminn til að búa til pakka heldur að kynna gestunum fyrir því sem er í nágreninu, t.d. á heimasíðunni og þar sem gististaðurinn er staðsettur. Ég er búinn að lesa margar greinar ýmissa ráðgjafa að núna er tíminn til að búa til pakkaferðir en ég er ekki sammála því og er ekki einn um það. Núna er tíminn til að búa til hagstæðustu ferðina fyrir ferðamanninn og hafa sem minnst innifalið. Það eina sem pakkinn býr til er lægri framlegð fyrir þig þar sem þú ert að gefa afslátt, oft á vöru sem gesturinn er þegar búinn að taka ákvörðun um að ætla að greiða fyrir.

Það sem skiptir máli er hvernig þú kemur þinni vöru á framfæri. Hvar er gististaðurinn skráður? Hvar er hægt að bóka hann? Ertu með heimasíðu? Eru aðrir en þú að stjórna því hvernig upplýsingar um gististaðinn þinn birtast? Eru verðin á þinni heimasíðu að birtast á verðsamanburðarsíðum? Hvað kemur upp þegar þú leitar að gististaðnum á netinu?

Við eigum fyrst og fremst að vinna í því að koma vörunni okkar á framfæri þar sem það kostar ekkert og eins og við viljum að henni sé komið á framfæri. Það eina sem kostar er heimasíðan. Hún býr til meiri trúverðugleika og það sem mestu máli skiptir er að þegar gestir bóka á síðunni, þá ertu að greiða lága eða enga þóknun og þar með meiri framlegð. Í þessum liðum eru ansi margir gististaðir að fá lága einkunn.

Fáðu aðstoð til að koma þínum gististað á framfæri sem býr ekki til langtímaútgjöld og flækjustig heldur býr til traustan tekjugrunn fyrir þinn gististað til framtíðar.