Hvenær á gististaður að opna aftur og er hann tilbúinn?

Við fengum góðar fréttir í vikunni þegar Pfizer tilkynnti að prófanir með bóluefni gegn COVID-19 hefðu gengið vel. Þetta eru auðvitað mjög góðar fréttir fyrir ferðaþjónustufyrirtæki sem hafa þraukað frá því í mars á þessu ári. Vonandi mun þetta leiða til þess að landið opnar bráðlega og að á næsta ári muni ferðaþjónustan vera komin á fulla ferð.

Nú þegar þessar fréttir hafa borist, þá er spurningin hvort gististaðir eru tilbúnir til að taka á móti gestum þannig að það verði arðbært. Enginn gististaður mun vera með sömu nýtingu og áður og hún verða mjög breytileg eftir dögum og verðin verða ekkert til að hrópa húrra fyrir. Það verður erfitt að reikna starfsmannaþörf í þannig ástandi og mun launakostnaður vera hlutfallslega mjög hár og að öllum líkindum leiða til þess að engin framlegð eða tap verður eftir opnun.

Í ástandi eins og er í dag, þá eru flestir gististaðir lokaðir og eru ólmir í að opna og taka aftur á móti gestum. Spurningin er, hvenær á gististaðurinn að opna aftur? Á hann að opna um leið og aðrir,bíða eða taka frumkvæði og vera fyrstur til að opna? Þetta er stóra ákvörðunin sem margir eru að velta fyrir sér í dag.

Gististaðir verða að vera meðvitaðir um kostnaðarliðina sem eiga eftir að hækka hlutfallslega meira en tekjur við opnun. Í dag er verið að selja gististöðum þjónustu sem gæti verið góð leið til að launakostnaður rjúki ekki upp úr öllu valdi. Starfsmannaleigur sem sérhæfa sig í þrifum geta verið góð lausn en þá er aðeins greitt fyrir þau herbergi sem eru þrifin. Þvottahús eru einnig að bjóða gististöðum upp á að leigja lín þannig að gististaðirnir sjálfir þurfa ekki að fara í þá fjárfestingu eins og að fjárfesta og viðhalda heilu þvottahúsi og kaupa reglulega lín sem er sömuleiðis mikil fjárfesting með miklum afföllum. Ef samningar nást, þá er hægt að halda áfram að nota þjónustuna þegar allt er komið á fullt. Ég geri ráð fyrir því að starfsmannaleigur greiði rétt og fari eftir öllum samningum. Ég hef reynslu af þessu sem gafst mjög vel.

Gististaðir þurfa heldur ekki að bjóða upp á alla þá þjónustu sem þeir annars bjóða upp á í venjulegu árferði. Flestir gestir hafa skilning á því vegna ástandsins í heiminum í dag. Það eina sem þarf að gera er að láta gestinn vita þegar hann mætir og benda honum á hvar hægt sé að fá sömu eða betri þjónustu annars staðar. Reynslan mín hefur kennt mér að gestur sem fær upplýsingarnar þegar hann mætir er sáttur en sá sem fær engar upplýsingar verður mjög ósáttur. Það þarf ekkert að afsaka heldur aðeins útskýra fyrir honum og bjóða aðra möguleika.

Það sem skiptir öllu máli og er í raun forsenda þess að hægt er að opna aftur er að gististaðurinn sé að taka á móti bókunum. Ef hann er ekki að hugsa um það, þá þarf ekki að hugsa um hvenær á að opna aftur. Að segjast vera með verðstýringu en fá engar bókanir, segir flestum að hún sé ekki að virka. Verðstýring byggir oftast á sögulegum gögnum og það er því miður ekki hægt að byggja á slíkum gögnum þar sem sveiflur milli ára eru of miklar. Það verður að byggja á reynslu. Það er ástæðan fyrir því að ég tel að verðstýring eigi að vera í höndum ábyrgs aðila innan gististaðarins en ekki einhvers utan aðkomandi. Tekjur eru frumforsenda alls og á ekki að vera höndum einhvers sem geur ekki borið ábyrgð.

Núna er mikilvægt að skrá gististaðinn á eins mörgum stöðum eins og mögulegt er til að ná hverju einustu mögulega bókun. Því fyrr, því betra. Það er ekki nóg að hafa hann skráðan á 2-3 stöðum. Það er svo mikilvægt í dag fyrir gististað að vera sýnilegur og bókanlegur alls staðar en ekki á aðeins fáum útvöldum bókunarsíðum. Þetta er reynslan mín sem hefur virkað í hvert einasta skipti.

Það er margt sem verður að hafa í huga áður en að gististaður opnar aftur. Mikilvægt er að halda kostnaði í lágmarki og hámarka tekjur eins fljótt eins og hægt er með að fjölga bókunarleiðum. Þá er hægt að opna gististaðinn fyrr og skila arðsemi. Ég tel að gististaðir sem eru með þetta í huga eigi eftir að verða leiðandi í framtíðinni.

Láttu okkur vita hvernig við getu aðstoðað þig. Sókn er besta vörnin!