Booking.com er mikilvægur hlekkur til að ná árangri en alls ekki sá eini!

Það er í raun alveg frábært hversu auðvelt það hefur verið að opna hótel eða gistiheimili og fá nægilega margar bókanir til þess að standa undir kostnaði. Það sem hefur gert þetta svona auðvelt er hversu stórt Booking.com er á markaðnum. Það var nóg að skrá gistinguna þar og bókanirnar hrúguðust inn. Svona var þetta þegar ferðamenn streymdu til landsins, þegar WOW air var í fullum rekstri.

Þegar ferðamönnum tók að fækka, þá kenndu margir Booking.com um að þeir væri ekki fá nógu margar bókanir en gleymdu því að það var Booking.com sem gerði þeim kleift að hefja rekstur á ótrúlega einfaldan hátt. Það var í raun engin hindrun á markaðnum.

Þegar nýtt fyrirtæki opnar, þá þarf að fara í mikla og oftast dýra markaðssetningu og auglýsingaherferðir. Það þarf að auglýsa og kynna fyrirtækið fyrir markaðnum og sannfæra viðskiptavininn um að þeirra vara er betri en annara. Þessa vinnu þarf að fara í áður en varan kemur á markað og kostar mikið. Sérstaklega fyrir smærri fyrirtæki með lítið fjármagn. Þrátt fyrir að farið sé í dýra kynningu er aldrei ljóst hver árangur verður. Þessari markaðssetningu þarf að viðhalda eftir að fyrirtækið opnar. Booking.com gerði flestum smærri gististöðum kleift að sleppa algerlega við þessa dýru markaðssetningu. 

Hótelbókunarsíður bjóða gististöðum upp á alls konar leiðir til að selja gistingu. Það er t.d. hægt að bjóða upp á lægri verð ef bókað er langt fram í tímann, lægra verð ef greitt er strax (non-refundable) og lægra verð þegar boðið er upp á pakka (t.d. gisting og matur). Misskilningur gististaða er að þeir halda að þeir verða að taka þátt í þessum leiðum til þess að selja herbergi. Annað sem gististaðir telja að þeir þurfa að gera er að hækka þóknun til hótelbókunarsíða til að birtast ofar í leitarniðurstöðum þeirra. Síðasti möguleikinn eykur svo vanþóknun þeirra á hótelbókunarsíðum. Margir kvarta yfir háum þóknunum, en ákveða svo sjálfir að hækka þóknunina. Ég hef engan skilning á því að greiða hærri þóknun.

Við höfum öll val og enginn neyðir okkur til að gera neitt. Ef gististaður vill hafa hlutina „einfalda“ og bjóða herbergi til sölu á fáum eða jafnvel einum stað, þá er hann sjálfur að koma sér í þá stöðu að þurfa að hækka þóknun og bjóða afslætti. Þetta leiðir af sér lægri eða enga framlegð. Gististaðir geta meira að segja neyðst til að loka.

Síðan ég byrjaði að vinna á hótelum þá hef ég haft það sérlega á tilfinningunni að allt of margir gististaðir vinni sölustarfið eftir hópþrýsingi og vanþekkingu. Með hópþrýstingi á ég við að gististaðir elta hverjir aðra og enginn má vera öðruvísi. Með vanþekkingu á ég við að vegna hópþrýstings, þá þorir enginn að kynna sér aðra möguleika því hópþrýsingurinn segir þeim að ekkert annað sé í boði.

Mín reynsla er sú að stórir og smári gististaðir geta nærri algerlega sleppt dýrri markaðssetningu og auglýsingaherferðum. Mín reynsla er einnig sú að það er hægt að sleppa því að greiða hærri þóknun til hótelbókunarsíða og meira að segja sleppt öllum tilboðum. Booking.com og aðrar hótelbókunarsíður eru samt sem áður mikilvægur hlekkur.

Það eina sem þarf er að fjölga leiðum þar sem hægt er að bóka gististaðinn beint, þ.e. í gegnum netið. Fjölbreyttari dreifing er besti og oftast eini kosturinn til að ná varanlegum árangri. 

Ekki láta hópþrýsting hafa áhrif á þig. Fáðu ráðgjöf um hvað þú getur gert betur og skaraðu fram úr.

Stefán Júlíusson
www.hospitality.is